verðtryggingin

Af hverju er ekki hægt að slá verðtryggingu af strax? Hvaða hagsmunir eru stærri en hagsmunir okkar sem búum í þessu landi. Okkar hagsmunir hljóta alltaf að vera stærstir því að lokum eru það við sem þurfum að borga brúsann. Skuldir þjóðarbúsins lenda á okkur. Mikiðværi gott en einhver gæti útskýrt þetta fyrir mér.

Sigmundur og kúgunin

Alveg finnst mér glatað að þeim Sigmundar hjónum skuli hafa verið sagt upp á Stöð 2. Finns Simmi flottur og það sem hann gerir. Skil líka sárindi Simma. En skil ekki að hann skuli segjast laus undan oki auðjöfra, frjáls. Var hann svona rosalega ófrjáls? Af hverju var hann þá ekki löngu hættur?

Ekki skynsamlegt hjá Simma.  

 


Þetta er indælt stríð

Hvað á að kjósa? Ég er búinn að taka prófið á www.xhvad.bifrost.is og því ljóst hvað ég ætti að kjósa. Niðurstaðan var sú að skoðanir mínar eiga mesta samleið með Sjálfstæðisflokknum en Samfylkingin var undarlega skammt undan. Því fór ég að velta fyrir mér í alvöru hvort ég ætti nú ekki að slá til og kjósa Valhallardrengina. Það yrði þá í fyrsta sinn í Alþingiskosningum. Eins og nærri má geta hvíldi þetta þungt á mér í allan gærdag. Kjósa Sjálfstæðisflokkinn? Ég var búinn að sannfæra sjálfan mig um að það væri nú ekki það versta í heimi. Efnahagsmálin eru jú í góðum gír, ég hef það bara fínt sjálfur og allt gengur bara svo vel og allir eru ánægðir. Ekki satt? Í miðjum þessum vangaveltum mínum í gærkveldi var mér skyndilega kippt niður á jörðina. Sjónvarpsfréttirnar björguðu mér og það rifjaðist upp af hverju ég hef alltaf fengið óbragð í munninn þegar hvarlað hefur að mér að kjósa íhaldið. Björn Bjarnason var hinn frelsandi engill. Hann skyldi þó ekki hafa fælt fleiri en mig frá flokknum? Það var sem sagt í fréttum að hann Bjössi litli (ég ætla að kalla hann Bjössa vegna þess að nú á hann sérstakan sess í hjarta mínu, hann bjargaði mér frá því að kjósa sig og það er svo skrítið að mér þykir allt í einu pínu vænt um kallinn) þarf að ráðá í stöðu aðstoðaryfirlögreglustjóra (ef ég man rétt). Það er tekið skýrt fram í lögum að auglýsa þurfi svona starf og meira að segja tilgreint að auglýsa eigi í blaði sem er gefið út á landsvísu. En hvað gerir Bjössi? Hann auglýsir stöðuna í Lögbirtingablaðinu, og á vef Lögbirtingablaðsins, og lætur birta auglýsinguna sama dag og umsóknarfrestur rennur út!!!!!! Say nó more, I rest mæ case, þarf frekari vitna við? Maður verður gjörsamlega kjaftstopp. Er maðurinn svona rosalega frekur á valdið og blindur á hvað er rétt og rangt? Dómsmálaráðherra fer ekki að lögum?!? Hver á þá að fara að lögum? Ja hérna hér. Í dag er sem sagt laus við þessa vitleysu sem braust um í mér í allan gærdag. Hann Bjössi litli reddaði því.   


Skrýtnar kannanir

"Könnunin var gerð 10.til 16.apríl. 1.225 voru í úrtakinu en svarhlutfallið var um 62%." Þessi tilvitnun er tekin af kosningavef Rúv, en í gær birti Rúv nýja könnun á fylgi stjórnmálaflokkanna sem unnin var af Capacent. 62% af 1.225 er 760 manns. Yfirleitt eru um 25% óákveðnir í svona könnunum en ef við tökum bara 20% frá þessari tölu þá standa eftir 608 einstaklingar á bak við þessa könnun. Ef þeir skiptast jafnt á milli kjördæma þá erum rétt um 100 kjósendur úr hverju kjördæmi inn í raunverulegum niðurstöðum könnunarinnar. Það hafa nú ekki þótt góðar tvíbökur hjá Capacent að byggja niðurstöður á 100 svörum. Kannanir sem eiga að sýna líklega úthlutun þingsæta verður nefnilega að byggja á hverju kjördæmi fyrir sig. Fleiri svör úr einu kjördæmi koma ekki til hjálpar í öðru. Það verður samt að segjast eins og er að Capacent er líklega með nákvæmustu kannanirnar, þ.e. stærsta úrtakið. Sérstaklega eru kannanir frá Blaðinu þar sem úrtakið er bara 800 manns ákaflega ótraustvekjandi. Þar eru um 50 manns úr hverju kjördæma á bak við niðurstöðurnar.

Það er með ólíkindum hvað stjórnmálamenn og fjölmiðlar láta mikið með þessar kannanir. Áttar enginn sig, nema Kristinn H Gunnarsson, á því hvað þetta er ónákvæmt.

Ég get ekki gagnrýnt kannanir án þess að minnast á kannanir Mannlífs, sem sendir spurningar á Plúsfélaga. Kannanir Mannlífs eru örðuvísi að því leyti að fjöldi svara sem berast hafa verið í kringum 4.000 talsins. Þar af hafa um 25% verið óákveðin og því sitja eftir um 3.000 svör, sem er býsna gott. Þó svo að dreifing á milli kjördæma sé langt í frá jöfn er það svo það kjördæmi sem skilar fæstum svörum er með um 8% af 3000 sem er um 240 svör. Það er því augljóslega marktækara að fá 240 svör en 100, svo ekki sé talað um 50. Hitt sem er athyglisvert við kannanir Mannlífs er það að hópurinn sem svarar er að miklu leyti sá sami á milli kannana. Þar með fæst athyglisverð mynd af sveiflum á fylgi flokka innan sama hóps.

Ég er ekki að segja að kannanir Mannlífs séu þær einu réttu en þær eru athyglisverðar vegna þessara tveggja atriða. Það sem er hins vegar ótrúlegt og í raun fáránlegt er að halda að kannanir með 800 manna úrtaki gefi raunhæfar vísbendingar um fylgi flokkanna. Ég er ekki oft sammála Kristni Gunnars en að þessu leyti er ég algerlega sammála manninum. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband