Skrýtnar kannanir

"Könnunin var gerð 10.til 16.apríl. 1.225 voru í úrtakinu en svarhlutfallið var um 62%." Þessi tilvitnun er tekin af kosningavef Rúv, en í gær birti Rúv nýja könnun á fylgi stjórnmálaflokkanna sem unnin var af Capacent. 62% af 1.225 er 760 manns. Yfirleitt eru um 25% óákveðnir í svona könnunum en ef við tökum bara 20% frá þessari tölu þá standa eftir 608 einstaklingar á bak við þessa könnun. Ef þeir skiptast jafnt á milli kjördæma þá erum rétt um 100 kjósendur úr hverju kjördæmi inn í raunverulegum niðurstöðum könnunarinnar. Það hafa nú ekki þótt góðar tvíbökur hjá Capacent að byggja niðurstöður á 100 svörum. Kannanir sem eiga að sýna líklega úthlutun þingsæta verður nefnilega að byggja á hverju kjördæmi fyrir sig. Fleiri svör úr einu kjördæmi koma ekki til hjálpar í öðru. Það verður samt að segjast eins og er að Capacent er líklega með nákvæmustu kannanirnar, þ.e. stærsta úrtakið. Sérstaklega eru kannanir frá Blaðinu þar sem úrtakið er bara 800 manns ákaflega ótraustvekjandi. Þar eru um 50 manns úr hverju kjördæma á bak við niðurstöðurnar.

Það er með ólíkindum hvað stjórnmálamenn og fjölmiðlar láta mikið með þessar kannanir. Áttar enginn sig, nema Kristinn H Gunnarsson, á því hvað þetta er ónákvæmt.

Ég get ekki gagnrýnt kannanir án þess að minnast á kannanir Mannlífs, sem sendir spurningar á Plúsfélaga. Kannanir Mannlífs eru örðuvísi að því leyti að fjöldi svara sem berast hafa verið í kringum 4.000 talsins. Þar af hafa um 25% verið óákveðin og því sitja eftir um 3.000 svör, sem er býsna gott. Þó svo að dreifing á milli kjördæma sé langt í frá jöfn er það svo það kjördæmi sem skilar fæstum svörum er með um 8% af 3000 sem er um 240 svör. Það er því augljóslega marktækara að fá 240 svör en 100, svo ekki sé talað um 50. Hitt sem er athyglisvert við kannanir Mannlífs er það að hópurinn sem svarar er að miklu leyti sá sami á milli kannana. Þar með fæst athyglisverð mynd af sveiflum á fylgi flokka innan sama hóps.

Ég er ekki að segja að kannanir Mannlífs séu þær einu réttu en þær eru athyglisverðar vegna þessara tveggja atriða. Það sem er hins vegar ótrúlegt og í raun fáránlegt er að halda að kannanir með 800 manna úrtaki gefi raunhæfar vísbendingar um fylgi flokkanna. Ég er ekki oft sammála Kristni Gunnars en að þessu leyti er ég algerlega sammála manninum. 

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband